Medic Alert

Medic Alert er alþjóðlegt öryggiskerfi fyrir sjúklinga.

Eftir Davíð Gíslason lækni

Medic Alert var stofnað í Bandaríkjunum 1956 af lækni að nafni Marion C Collins. Þremur árum áður hafði dóttir hans fengið lífshættuleg ofnæmisviðbrögð.

Collins gerði sér grein fyrir því að aðstæður, svipaðar þeim sem dóttir hans lenti í,

geta oft komið upp og að skjót og rétt viðbrögð við mörgum sjúkdómum geta skipt verulegu máli og jafn vel ráðið úrslitum um líf eða dauða. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að sjúklingurinn beri á sér upplýsingar sem gera rétt viðbrögð möguleg. Medic Alert kerfinu er einmitt ætlað að koma að gagni

við slíkar aðstæður. Merkisberar eru nú um fjórar milljónir, 2,3 milljónir í Bandaríkjunum og 1,7 milljón í níu löndum utan Bandaríkjanna, þar sem Medic Alert er starfandi.

Linda Collins var dóttir læknishjóna í Turlock í Kaliforníu. Hjónin voru að heiman í fríi þegar dóttirin, þá 14 ára, var fyrir því slysi að skera sig illa á fingri. Á þessum tíma var venja að gefa stífkrampabólefni þeim sem urðu fyrir sárum. Stífkrampabólefnið innihélt hrossasermi, sem gat valdið miklu ofnæmi. Því var gert húðpróf fyrir bólefninu hjá Lindu og brást hún við með heiftarlegu losti. Foreldrarnir gerðu sér grein fyrir því að ef hún hefði fengið bólefnissprautuna hefði hún vafalítið látist. Þegar Linda fór eitthvað að heiman hengdu þau aðvörunarmiða í fötin hennar sem lýstu þessu ofnæmi. Seinna lét faðir hennar gullsmið útbúa armband þar sem á stóð „ Með ofnæmi fyrir stífkrampa bóluefni“, en á framhliðinni var stafurinn og snákurinn, merki læknislistarinnar, og orðin Medic Alert

Medic Alert aðvörunarkerfið er í þrennu lagi:

A. Málmplata fyrir hálsmen eða armband með merki Medic Alert á annarri hlið en upplýsingar um sjúkdóm eða hættuástand, einkennisnúmer merkisberans hjá Medic Alert og símanúmer vaktstöðvar á hinni hliðinni.

B. Nafnspjald, sem bera á í veski. Á því eru nokkuð fullkomnari upplýsingar um merkisberann, m. a. símanúmer nánasta vandamanns og læknis hans og upplýsingar um sjúkdómsgreiningu og lyfjanotkun.

C. Vaktstöð, sem opin er allan sólahringinn og geymir afrit af umsóknareyðublaði merkisberans. Þar eru geymdar helstu upplýsingar um heilsufar hans, náinn vandamann og lækni hans. Hér á landi er vaktstöðin til húsa á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og má hringja í hana á öllum tímum sólarhringsins, endurgjaldslaust, hvaðan sem er úr heiminum.

Hverjir geta haft gagn af því að bera Medic Alert merki?

Medic Alert merkin geta gagnast fjölda sjúklinga með mismunandi sjúkdóma. Þetta á t.d. við um þá sem misst geta meðvitund vegna sjúkdómsins (flogaveiki, hjartasjúkdómar, insúlín háð sykursýki, ofnæmi, o. fl.) eða af öðrum ástæðum verið ófær um að gera grein fyrir sjúkdómsástandi sínu (minnisglöp) eða ef þeir hafa misst meðvitund vegna slyss og eru með dreyrasýki eða á blóðþynningarmeðferð eða með ofnæmi fyrir lyfjum, sem hugsanlega yrðu gefin, svo að nokkur dæmi séu tekin.

Medic Alert á Íslandi

Hugmyndinni að stofnun Medic Alert á Íslandi var fyrst hreyft af Birni Guðmundssyni, þáverandi fulltrúa Norðurlandanna í alþjóðastjórn Lionshreyfingarinnar. Það var á fundi í Lionsklúbbi Kópavogs 11. febrúar 1981. Hann hafði kynnst starfsemi Medic Alert í Bandaríkjunum í tengslum við starf sitt í alþjóðastjórn Lions. Læknar í klúbbnum, þeir Davíð Gíslason og Guðsteinn Þengilsson, fengu það verkefni að kanna hvort einhver þörf væri fyrir aðvörunarkerfi eins og Medic Alert á Íslandi.

Þeir voru þeirrar skoðunar að Medic Alert gæti aukið á öryggi þúsunda Íslendinga sem haldnir eru bráðum eða alvarlegum sjúkdómum. Hafði Davíð fundið sérstaklega fyrir vöntun á slíku kerfi í starfi sínu sem ofnæmislæknir. Á Lionsþingi í Ísafirði 1983 var samþykkt tillaga frá Lionsklúbbi Kópavogs um að Lionshreyfingin beitti sér fyrir stofnun Medic Alert á Íslandi. Það var svo nefnd undir forsæti Jóhannesar Pálmasonar úr Lionsklúbbnum Nirði , þáverandi ramkvæmdastjóra Borgarspítalans, og með þeim Davíð, Guðsteini og Ólafi St. Sigurðssyni úr Lionsklúbbi Kópavogs sem sá um undirbúning að sjálfseignarstofnun Medic Alert á Íslandi, en sjálfur stofndagurinn var 30. janúar 1985. Var Jóhannes fyrsti formaður stjórnarinnar en Davíð og Ólafur sátu í stjórninni fyrstu árin. Medic Alert á Íslandi þurfti að fá starfsleyfi frá alþjóðastjórn Medic Alert og sníða starfsemi sína að reglum hennar. Á Íslandi er Medic Alert starfrækt á ábyrgð Lionshreyfingarinnar og er til húsa á skrifstofu hennar að Sóltúni 20 í Reykjavík. Níu sjúklingafélög eru styrktaraðilar og eiga fulltrúa í fulltrúaráði, sem kýs tvo menn í stjórn, en Lionshreyfingin skipar þrjá menn í stjórnina. Guðsteinn var formaður fulltrúaráðsins fyrstu árin. Fjórir Lionsmenn hafa gegnt formennsku í Medic Alert á Íslandi, þeir Jóhannes Pálmason, Ólafur Briem Lkl. Fjölni, Magnús B Einarsson Lkl. Mosfellsbæjar og Lúðvík Andrésson Lkl. Tý. Í viðauka hér að neðan er tafla þar sem gefur að líta algengustu sjúkdómsgreiningar á Medic Alert merkjum á Íslandi til ársins 2010.

Lionsmenn við bóðsykurmælingar

Merkisberar á Íslandi

Þeir sem fengið hafa merkið á Íslandi eru nú orðnir 5238 (10 desember 2011). Á þeim tæpu 26 árum sem liðin eru frá stofnun Medic Alert á Íslandi bera hlutfallslega fleiri merkið hér á landi en í nokkru öðru landi að Bandaríkjunum meðtöldum, þar sem Medic Alert hefur starfað í 55 ár. Þetta er vitnisburður um það að fræðsla og þekking á heilbrigðismálum á greiðari aðgang að Íslendingum en flestum öðrum þjóðum.

Til þess að fá aðild að öryggiskerfi Medic Allert þarf læknir væntanlegs merkisbera að fylla út þar til gert umsóknaeyðublað, sem nálgast má á heimasíðu Medic Alert (medicalert.is). Þar er spurt um nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang umsækjanda og nafn og símanúmer þess sem hafa á samband við, ef eitthvað hendir merkisberann. Spurt er um heimilislækni og/eða sérfræðing, sjúkdómsgreiningu á málmplötu, lyfjanotkun og að lokum val á merki. Bæði merkisberinn og læknirinn verða að undirrita umsóknina.

Algengustu sjúkdómsgreiningar Medic Alert árið 2010