Sunnuhlíð

Hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi

Sunnuhlíð


Eftir: Jónas Frímannsson

Eitt stærsta verkefni, sem Lionsklúbbur Kópavogs hefur átt aðild að, er bygging og rekstur Sunnuhlíðar, Hjúkrunarheimilis aldraðra.

Upphafið má rekja yfir þrjá áratugi aftur í tímann, þegar konur í Sóroptimistaklúbbi Kópavogs efndu til víðtæks samráðs um úrræði til þess að mæta vaxandi þörf á aðhlynningu og vistun sjúkra aldraðra í bæjarfélaginu. í apríl 1978 komu fulltrúar saman frá 10 félagasamtökum til þess að ræða á hvern hátt mætti efla þjónustu við sjúka aldraða og létta umönnun af einkaheimilum. Ákváðu félögin að snúa bökum saman og hrinda af stað almennri fjársöfnun með það að markmiði að reisa öldruðum Kópavogsbúum hjúkrunarheimili.

Sumarið 1979 var í fyrsta skipti dreift söfnunarbaukum meðal bæjarbúa, sjá mynd að ofan. Markmiðið var að koma baukum á öll heimili auk fyrirtækja. A vegum samtakanna var skipulögð viðamikil kynning á verkefninu, auk þess að félagar önnuðust fjársöfnun, sem fór þannig fram að gengið var í hús, baukar með peningum sóttir, en tómir baukar skildir eftir i staðinn - og svo koll af kolli.

Sunnuhlíð að vetri tilA árunum 1980 og 1981 var farið alls fjórum sinnum í svona „baukasöfnun". Drjúgt safnaðist í sparibaukana, en þó fengust hærri upphæðir eftir öðrum leiðum. Félögin og klúbbarnir, sem standa að Sunnuhlíð, lögðu öll sitt að mörkum með margvíslegum hætti, auk þess að afgerandi stuðningur fékkst frá ríki og bæ.

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð tók til starfa 1982. Upphaflega voru vistrými 38 að tölu. Á þeim þremur áratugum, sem þessi saga nær til, hefur heimilið verið stækkað í áföngum og eru þar nú 73 vistrými, en jafnframt er rekin þjónustumiðstöð og „Dagdvöl", sem um 40 aldraðir sækja að jafnaði.

Aðildarfélögin, þar á meðal Lionsklúbbur Kópavogs, hafa allt frá upphafi og fram á þennan dag, veitt Sunnuhlið styrktarframlög við fjölda mörg tækifæri, bæði í formi fjármuna og með öðrum hætti. Sunnuhlíðarsamtökin stefna að stækkun og eflingu í náinni framtíð á öllum þeim þjónustuþáttum, sem hér hafa verið taldir.Sunnuhliðarsamtökin hafa, auk þess er að ofan greinir, byggt og starfrækja 108 íbúðir fyrir aldraða í næsta nágrenni við hjúkrunarheimilið.