Hvers vegna LIONS?

Ólafur Briem

Hvers vegna LIONS-félagi?

Lionsklúbbur Kópavogs var stofnaður á sérstökum fundi í Félagsheimili Kópavogs 13. maí 1959 og varð því 60 ára gamall á árinu 2019 og er nú sem fyrr öflugur vettvangur félagsstarfs og góðgerðarverkefna

Eftir 60 ára starf er tímabært að horfa til liðins tíma og rifja upp fortíðina.

Eftir 56 ára starf er hollt að endurskilgreina tilgang Lions-starfsins í ljósi reynslu klúbbsins og annarra klúbba.

Eftir 60 ára starf er mikilvægt að líta til framtíðar, hlúa að því sem vel hefur tekist og efla það sem má bæta.

Margar hendur vinna létt verk. Klúbburinn er opinn öllum sem vilja leggja góðum málefnum lið.

Undanfarin ár og áratugi hefur hagvöxturinn fært íslendingum aukinn kaupmátt og frítíma. Að sama skapi hefur framboð valkosta til afþreyingar þróast á þann veg að flestir telja sig hafa of mikið að gera. Gömul félög og fullt af nýjum hafa þess vegna þurft að markaðssetja félagsstarf sitt og tefla fram rökum til að laða fólk að sér í samkeppni sín á milli og við allskyns tómstunda- og skemmtiiðnað.

Gagnvart Lionshreyfingunni hefur þessi þróun leitt til þess að starfsemi hennar er mjög vel skilgreind og eitt af því sem hún getur státað af er að leggja ýmislegt að mörkum til að byggja upp einstaklinginn sem félagsveru til gagns fyrir samfélagið. Þessi hreyfing býður nefnilega upp á skemmtilegan félagsskap sem hefur að markmiði að láta gott af sér leiða. Klúbbarnir sem mynda hreyfinguna hafa svo nokkuð gott svigrúm til að velja sér verkefni sem hentar og áhugi er á. Þannig þjóna klúbbarnir oft sem uppspretta sjálfboðavinnu og styrkveitinga fyrir nærsamfélagið. Lionsklúbbur Kópavogs hefur að nokkru leyti litið til síns bæjarfélags og styrkt Sunnuhlíðasamtökin til uppbyggingar hjúkrunarheimilis fyrir aldraða, styrkt tækjakaup, unglingaskipti ýmiskonar, félagslíf aldraðra og umhverfismál. Þá hefur hann einnig verið þátttakandi í alþjóðaverkefnum svo sem „Lions Quest“ um lífsleikni, í sjónverndarverkefni ásamt fleiru sem tengist Lionsumdæminu á Íslandi.

Það vill svo til að Alþjóðaskrifstofan í Chicago tekur saman góðgerðarframlag allra klúbba í heiminum árlega skv. ákveðnum samræmdum mælikvörðum. Hverjum klúbbi gert að halda utan um sitt árlega framlag til góðra verka sem flokkuð eru niður eftir samræmdri fyrirmynd. Svona bókhald er um leið hvatning til klúbbfélaga því það segir sögu um, hverju hver klúbbur hefur áorkað og veitir þess vegna þeim ánægju er lögðu góðum málum lið. Þegar hugað er að slagkrafti klúbbana saman kemur dálítið merkilegt í ljós. Lions er stærsta alþjóðlega þjónustuhreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum 1917, með 1,3 milljónir félaga í 46,000 klúbbum í 202 löndum. Lions hefur náð með styrk sínum í alþjóðlegu sjónverndarátaki að koma í veg fyrir sjóntap 24 milljóna manna og meðhöndla 65 milljónir vegna sjóntruflana. Lions hefur styrkt sykursýkisvarnir og veitt styrki úr hjálparsjóðum Lions vegna náttúruhamfara út um allan heim. Að lokum má nefna alþjóðlegt barna- og unglingaverkefni Lions Quest sem nær yfir 30 lönd um bættan og heilbrigðari lífsstíl og vímuefnavarnir.

Sextíu ára gæfuríkt starf Lionsklúbbs Kópavogs er varðað mörgum tímamótum og áföngum í sögu hans og uppbyggingu samfélagsins. Þegar litið er til baka er margs að minnast. En við þessi merku tímamót er jafnmikilvægt að horfa fram á veginn. Klúbburinn mun halda áfram að láta gott af sér leiða og vera vettvangur góðs félagslífs í Kópavogi og skorar á þá sem vilja bæta samfélagið að hugleiða þennan valkost sem Lionsklúbbur Kópavogs er.