Forsíða‎ > ‎blog‎ > ‎

MedicAlert á Íslandi og Landspítali Háskólasjúkrahús í nánara samstarfi

posted Mar 27, 2014, 2:15 PM by Ómar Þorsteinsson
Lionsklúbbur Kópavogs gekkst fyrir því á síðasta starfsári (2012-2013) að koma gagnagrunni MedicAlert á Íslandi í varanlega hýsingu hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH). 
Landspitali

Gagnagrunnurinn inniheldur heilbrigðisupplýsingar um viðskiptavini MedicAlert sem geta skipt sköpum þegar hætta steðjar að þeim.

Fram til haustsins 2013 voru þessar upplýsingar skráðar á tveimur stöðum og var aðal gagnagrunnurinn hýstur á skrifstofu MedicAlert, en afrit sent á viku til tveggja vikna fresti til tölvudeildar LSH. Þetta fyrirkomulag var ekki talið henta lengur þar sem upplýsingar uppfærðust ekki samtímis í gagnagrunnunum, auk annarra þátta sem lúta að rekstraröryggi gagnagrunna og meðferð viðkvæmra upplýsinga.  

MedicAlert

Við þessa breyttu tilhögun á rekstri gagnagrunnsins fellur hann nú alfarið inn í öruggt rekstrarumhverfi í umsjón Heilbrigðis- og upplýsingartæknideildar LSH (HUT). Starfsfólk MedicAlert á Íslandi tengist gagnagrunninum gegnum Vefinn með öruggri fjartengingu inn til LSH á sama hátt og læknastofur, heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahús gera í dag. Bráðadeild LSH hefur því á hverjum tíma réttar upplýsingar um notendur MedicAlert merkja. Auk þessa uppfærist gagnagrunnshugbúnaðurinn í nýjustu útgáfu hverju sinni þegar LSH uppfærir hann hjá sér, MedicAlert að kostnaðarlausu. Sjálfvirk uppfærsla er nú tengd við þjóðskrá, lyfjaskrá og læknaskrá, ásamt því að falla inn í afritunarumhverfi LSH og ferli sem lúta að prófunum á endurheimt gagna.

Landspítali Háskólasjúkrahús stendur undir öllum kostnaði sem fellur til við þetta nýja fyrirkomulag, en tengingin er aðgengileg frá þremur tölvum á skrifstofu MedicAlert. Við þökkum stjórnendum á Heilbrigði- og upplýsingatæknideild LSH fyrir þá rausnarlegu ákvörðun að greiða allan árlegan kostnað sem af þessu nána samstarfi hlýst. Einnig færum við starfsfólki HUT bestu þakkir fyrir þá vinnu sem það lagði af mörkum við að aðlaga gagnagrunninn að nýju rekstrarumhverfi og gera þetta mögulegt, sem og starfsfólki á skrifstofu MedicAlert fyrir þá þolinmæði og skilning sem það sýndi á meðan á verkefninu stóð.

Kópavogur 25. mars 2014

Lionskúbbur Kópavogs.
Ómar Þorsteinsson

Höfundur er varamaður í stjórn MedicAlert á Íslandi og starsmaður Heilbrigðis- og upplýsingartæknideildar Landspítala Háskólasjúkrahúss.


Comments