Forsíða‎ > ‎blog‎ > ‎

Ferðalag Lionsmanna til Þýskalands

posted Jan 18, 2012, 2:28 PM by Ómar Þorsteinsson
Lagt var í bítið upp í himinblámann frá Keflavík fimmtudaginn 19. maí 2011 og stefnan tekin á Frankfurt am Main. Allur hópurinn skilaði sér í tæka tíð á völlinn. Ekki var hafður stans í Frankfurt heldur stigið upp í rútu sem hélt þegar með okkur áleiðis til Freiburgar um 240 km leið. Ökumaður var Grétar Hansson og skilaði hann okkur á leiðarenda heilu og höldnu. Það gerði hann reyndar alla daga ferðarinnar því að víða var ferðast um landið kringum Freiburg enda margt að sjá eins og nærri má geta. Snilli bílstjórans verður vart með orðum lýst því að hann gat snúið rútunni skakkafallalaust, jafnt í  Á myndinni eru þeir Friðrik Friðriksson fararstjóri og Halldór Olesen      svartamyrkri sem um hábjartan dag, á hótelplaninu sem var á stærð við þokkalegt frímerki. Við það starf naut hann reyndar leiðsagnar þjálfaðs umferðarlögreglumanns sem fékk af þeim starfa og fleiru auknefnið Bakkus. Hótelið okkar, Stadt Freiburg, ber með rentu fjórar stjörnur enda þraut aldrei góðar veigar á barnum sem naut mikilla vinsælda á síðkvöldum og jafnvel fram eftir nóttu.

Fararstjórinn okkar Friðrik G. Friðriksson, staðkunnugur maður og hafsjór af fróðleik, gætti þess að
leggja aldrei upp í skoðunarferðir fyrr en undir hádegi svo að menn gætu hvílt vel lúin bein og náð
sér eftir bardvölina kvöldið áður.

Ekki verður vettvangs- og skoðunarferðum lýst hér í smáatriðum en þó stiklað á stóru. Á fyrsta heila
deginum var farið um Svartaskóg og hafður stuttur stans á völdum stöðum. Skógur þessi er frægur
í sögunni enda hafa þar mörg myrkraverk verið framin í aldanna rás. Næsta degi var eytt í að skoða
borgina og versla þar eð fyrirhuguð ferð í Europark féll niður. Helst þótti tíðindum sæta að Jónas
keypti sér nýja skó en hann hafði verið illa skæddur um langa hríð.

Undir kvöld var haldið í Glottertal og þóttust sumir ferðalangarnir hafa komið á þær slóðir áður þótt
þeir hefðu aldrei fyrr stigið fæti á þýska grund. Skýringin var ekki óhófleg áfengisdrykkja og ofsjónir
heldur kom upp úr kafinu að þessir einstaklingar höfðu verið dyggir áhorfendur að myndinni um
sjúkrahúsið í Svartaskógi sem nýlega var á dagskrá í íslensku sjónvarpi og tekin var upp á þessum
slóðum.

Sunnudaginn 22. var haldið að Bodenvatni. Ekið var um blómleg héruð enda er þetta hlýjasti hluti
Þýskalands. Þau undur gerðust þó á leiðinni að það skall á okkur haglél úr heiðskíru lofti svo að jörð
varð alhvít. Snjóinn tók þó fljótt upp og veðrið var skínandi gott þegar komið var á blómaeyjuna
Mainau í Constancevatni sem er flói inn úr hinu mikla Bodenvatni. Eyja þessi er einn samfelldur
skrúðgarður með ótrúlegu blómskrúði og trjágróðri. Blómagarður þessi er afrakstur ævistarfs hins
konungborna Svía Lennart Bernadotte og nú í umsjá fjölskyldu hans. Það væri að æra óstöðugan að
reyna að lýsa öllu því er fyrir augu bar á þessum stað. Svo var siglt til Fredrichshaven og þaðan ekið
heim til Freiburgar. 270 km voru að baki og var þetta lengsta dagsferðin.

Enn voru tveir dagar eftir af ferðalaginu og var þeim fyrri varið í heimsókn til Frakklands sem
reyndar var innan seilingar frá dvalarstað okkar. Þar í landi er hérað það er Elsass nefnist og búa þar
víðfrægir vínbændur og þótti ástæða til að heimsækja einn slíkan sem þekktur er fyrir sín gæðavín.
Ferðalangarnir voru ekki sviknir af þeirri ferð enda þyrstir og margs konar gómsætt vín á boðstólum
og kvöldverðinn borðuðum við á staðnum. Síðasta daginn sleppti svo Friðrik fararstjóri okkur lausum í borginni og gátu menn þá skoðað merka staði og eytt síðustu evrunum.

Að morgni hins 25. maí var svo haldið heimleiðis og urðu engar tafir á ferð okkar þrátt fyrir
flugbann yfir Norður-Þýskalandi og víðar vegna öskugossins í Eyjafjallajökli sem hófst 21. maí.
Ferðalangarnir kunna ferðanefndinni bestu þakkir fyrir vel skipulagða og lukkaða ferð.

Höfundur: Ingvi Þór Þorkelsson

Um fararstjórann kvað Jónas Frímannsson:

Skarta fjöllin skírri mjöll,
skrýddur er völlur þöllum.
Friðrik köllum fræðatröll,
fremstan af öllum köllum.

Skáldið Jónas færði ferðalagið að hluta í bundið mál:

Er lagðist yfir aldið Frón
öskubylur dökkur,
til Freiburgar þá fóru ljón
að forðast þetta rökkur.

Fóru lionsfélagar
fram um Svörtuskóga,
þrumur urðu og eldingar
og óðar tók að snjóa.

Sólin aftur birtist brátt
og bræddi þegar snæinn.
Gengið ljóna gerðist kátt,
gekk þeim allt í haginn.

Ljónin óku yfir Rín
einnig Dóná bláu.
Öllum þótti ferðin fín
og fjölda margt þeir sáu.

Grétar Hansson okkur ók
aldrei neitt að hika.
Aftur á bak hann einatt tók
á afar þröngum skika.

Grétar og Bakkus gerðu met
er gátu þeir bakkað rútu inn
á reit, sem aðeins var átta fet
á annan veginn en tvö á hinn.

*Ath.
Pétur Sveinsson var kallaður
Bakkus af því að hann aðstoðaði
Grétar við að bakka.